Óskar yfirgaf Blika í október í fyrra, en þá var liðið á fullu í riðlakeppni Sambansdeildarinnar. Hann tók svo við Haugesund í Noregi, þar sem hann stoppaði stutt og tók svo við KR í sumar.
Óskar vildi hins vegar fá að klára Sambandsdeildina með Blikum, sem hann fékk ekki. Lítur hann því á það sem svo að hann hafi verið rekinn úr Kópavoginum.
„Ég hitti þá og átti eitt ár eftir af samningnum mínum, sem var af einhverjum ástæðum óuppsegjanlegur. Ég bað um að fá að hætta eftir tímabilið. Þeir tóku sér einhverja viku í að pæla í því hvernig þeir vildu standa að því og komust að þessari niðurstöðu,“ sagði Óskar í Dr. Football.
„Þá er ekki hægt að líta á það öðruvísi en að ég hafi verið rekinn, þetta var ekki skets í Fóstbræðrum. Þeir sögðu mér upp áður en ég gat klárað það sem ég vildi klára. Ef maður hættir ekki á eigin forsendum þá þýðir það yfirleitt að maður sé rekinn.“
Óskar náði heilt yfir fantagóðum árangri með Breiðablik. Hann gerði liðið að Íslandsmeistara 2022 og kom því í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar ári síðar.