Alejandro Garnacho snýr aftur í leikmannahóp Manchester United sem heimsækir Tottenham á morgun.
Garnacho var hafður utan hóps í sigrinum gegn Manchester City um helgina og hafa margir velt framtíð hans fyrir sér undir stjórn Ruben Amorim á Old Trafford. Í dag var Argentínumaðurinn til að mynda orðaður við Atletico Madrid.
Hann er hins vegar mættur aftur í hópinn en það sama má ekki segja um Marcus Rashford, sem einnig var utan hóps gegn City.
Rashford ferðaðist ekki með liðinu frá Manchester í dag, en dagar hans á Old Trafford eru líklega senn taldir.