Kári Árnason, yfirmaður knattsspyrnumála hjá Víkingi, segir tilboð hafa borist í hinn geysilega efnilega Gísla Gottskálk Þórðarson. Þau séu þó töluvert frá því sem félagið vill fyrir kappann.
„Það er búið að senda tilboð í hann, það er ekkert launungarmál. Skiljanlega, hann er búinn að standa sig frábærlega,“ sagði Kári í samtali við 433.is í dag.
Gísli hefur sprungið út með Víkingi á leiktíðinni og staðið sig vel í Sambandsdeildinni, þar sem góðar líkur eru á að liðið komist áfram úr deildarkeppninni.
„Þessi tilboð eru ekki alveg jafngóð og við teljum virði hans vera svo það verður allavega ekki gengið að þeim eins og staðan er í dag. Það er nóg eftir af þessu, þetta byrjar ekkert almennilega fyrr en í janúar svo við erum bara rólegir,“ sagði Kári, sem vildi ekki fara út í hvaðan tilboðin væru.
Sem fyrr segir eru góðar líkur á að Víkingur fari áfram í útsláttarkeppni Sambansdeildarinnar og var Kári spurður að því hvort hann teldi líklegt að Gísli verði með þeim þar.
„Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós. Þetta er samtal sem við eigum við Gísla og hans fólk líka.“