Piers Morgan, fjölmiðlamaðurinn umdeildi, er mikill stuðningsmaður Arsenal en hann var allt annað en hrifinn af ummælum knattspyrnustjórans Mikel Arteta á blaðamannafundi.
Arteta var þá spurður út í sín fimm ár hjá Arsenal sem stjóri og þá staðreynd að hann væri aðeins með einn titil, FA bikarinn 2020.
Arteta brást við með því að segjast hafa unnið samfélagsskjöldinn tvisvar, titilinn sem bikarmeistarar og Englandsmeistarar keppa um hvert haust.
„Samfélagsskjöldinn líka, svo þrír titlar,“ sagði Arteta.
Morgan fannst þetta hálf-vandræðalegt og gefur greinilega ekki mikið fyrir skjöldinn góða.
„Ó nei, segið mér að Arteta hafi ekki sagt þetta,“ skrifaði hann á samfélagsmiðla.
Arsenal hefur verið í nokkrum vandræðum á tímabilinu miðað við síðustu ár og situr liðið í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.