Þórir gerði norska kvennalandsliðið í handbolta að Evrópumeisturum í sjötta sinn á dögunum en hann kveður nú eftir 15 ára starf. Stefán velti því fyrir sér hvort hann verðskuldi ekki fálkaorðuna, eins og karlalandsliðið í handbolta hlaut eftir að hafa hlotið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Pekíng 2008.
„Þórir Hergeirsson er magnaður maður. Sennilega sigursælasti íslenski þjálfari sögunnar á erlendri grund. Er einhver sem getur leiðrétt þá fullyrðingu? Mér finnst undarlegt að honum hafi ekki hlotnast fálkaorðan. Það færi vel á því að hann hlyti stórriddarakross, rétt eins og Guðmundur Guðmundsson gerði eftir að Ísland skilaði sér í úrslit á einu af risamótunum góðu hér um árið. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands – mætti láta orðunefndina taka þetta til skoðunar,“ skrifaði Stefán á Facebook.
Einhverjar umræður sköpuðust undir færslu Stefáns og veltu menn til að mynda fyrir sér næstu skrefum Þóris. Stefán sló þá á létta strengi.
„Vantar karlaliðið í fótboltanum ekki alvöru þjálfara?“ spurði hann, en KSÍ er auðvitað í leit að þjálfara eftir brottför Age Hareide.
Stefáni var bent á að Þórir þjálfaði handbolta en ekki fótbolta en var ekki lengi að svara því.
„Ég var nú bara að hugsa út fyrir boxið? Er það bannað?“ skrifaði Stefán.