Manchester United hefur hafið rannsókn til að reyna að komast að því hver er að leka upplýsingum um byrjunarliðið áður en það er opinberað.
Liði United í sigrinum gegn Manchester City í gær var lekið löngu áður en leikur hófst og beinast spjót margra að Alejandro Garnacho, sem var hafður utan hóps í gær eins og Marcus Rashford.
Liði United hefur áður verið lekið þegar Garnacho er utan hóps og er bróðir leikmannsins grunaður um lekann, en hann hefur neitað.
Ruben Amorim stjóri United, hefur samkvæmt breska götublaðinu The Sun rætt við bæði Garnacho og Amad Diallo um hvort þeir séu ábyrgir fyrir því að leka liði United.
„Ég veit hvaða sögur eru í gangi og það er vonlaust að laga þetta. Það er mikið af fólki í kringum klúbbinn, leikmenn tala við umboðsmenn. Þetta er ekki gott,“ sagði Amorim um málið í gær.