Bernardo Silva, leikmaður Manchester City, var harðorður í garð sín og liðsfélaga sinna eftir tap gegn Manchester Untied í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Það virtist stefna í 1-0 sigur City þegar United jafnaði úr víti á 88. mínútu og vann svo leikinn með marki skömmu síðar.
City hefur verið í tómu tjóni undanfarið og unnið einn leik af síðustu ellefu í öllum keppnum.
„Við áttum þetta skilið. Ef þetta eru 1-2 leikir getum við talað um heppni eða óheppni en þegar þetta eru tíu leikir snýst þetta um eitthvað annað,“ sagði Silva eftir leik.
„Ef þú ert að vinna nágrannaslag 1-0 og færð hornspyrnu á 87. mínútu sem endar með því að hitt liðið fær vítaspyrnu, ef þú gerir eitthvað svo heimskulegt áttu skilið að borga fyrir það.
Við þurfum að líta inn á við. Þetta snýst um ákvarðanir sem við tökum og við spiluðum síðustu mínúturnar eins og U-15 lið.“
City er í fimmta sæti deildarinnar, 9 stigum frá toppliði Liverpool sem einnig á leik til góða.