Sævar Atli Magnússon, landsliðsmaður og leikmaður Lyngby í Danmörku, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Arnar Grétarsson hefur undanfarið verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Kolding í dönsku B-deildinni, en liðið lét Lasse Holmgaar fara á dögunum.
„Mér finnst Arnar vera meiri atvinnumannaþjálfari en einhver þjálfari sem er að þjálfa hér á Íslandi klukkan fjögur á daginn,“ sagði Hrafnkell í þættinum.
Sævar spilar sem fyrr segir í Danmörku og þekkir aðeins til Kolding.
„Ég hef horft á þetta lið og þeir eru þekktir sem eitt harðasta liðið í Danmörku. Þeir spila fimm manna vörn, brjóta mikið af sér. En Þetta væri örugglega mjög fínt fyrir Arnar.“
Kolding, sem er um miðja deild, virðist vera á leið í einhverjar áherslubreytingar en það kemur mörgum á óvart að stjórinn hafi verið látinn fara að sögn Sævars.
„Það er mikið talað um það í Danmörku að það sé skrýtið að láta þjálfarann fara. Þeir eru að standa sig vel.“
Umræðan í heild er í spilaranum.