Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, hefur komið markverðinum Andre Onana til varnar eftir önnur mistök sem hann gerði á fimmtudag.
Onana gaf Viktoria Plzen mark í 2-1 sigri í Tékklandi í Evrópudeildinni en hann gerði einnig mistök um síðustu helgi í ensku úrvalsdeildinni.
Fernandes segir að enginn leikmaður United efist um gæði kamerúnska markmannsins og að hann sé gríðarlega mikilvægur fyrir þann leikstíl sem liðið býður upp á.
,,Við viljum spila frá aftasta manni og allir vita það, þá þurfum við að taka rétta ákvörðun á vellinum,“ sagði Fernandes.
,,Andre hélt að Matthijs de Ligt myndi ná til boltans en það gekk ekki upp og þeir náðu að skora.“
,,Þetta snýst ekki um mistök Andre, við erum ekki að horfa í einstaklinga. Við höfum bullandi trú á honum í markinu. Hann veit að hann gerði mistök því hann er gáfaður náungi. Hann mun hjálpa okkur margoft í framtíðinni og við höfum trú á honum með boltann.“