Bjarki Björn Gunnarsson er endanlega genginn í raðir ÍBV frá Víkingi, þaðan sem hann hefur verið á láni í tvö ár.
Bjarki var hluti af liði Eyjamanna sem fór upp í efstu deild í sumar og er nú mættur þangað alfarið.
Tilkynning ÍBV
Knattspyrnumaðurinn Bjarki Björn Gunnarsson hefur fengið félagaskipti í ÍBV en hann hefur verið á láni hjá félaginu síðustu tvö ár. Hann lék 14 leiki fyrir ÍBV í deildinni á árinu og skoraði í þeim 5 mörk en tvö þeirra voru meðal fallegustu marka deildarinnar.
Bjarki er uppalinn hjá Víkingi Reykjavík og skiptir til ÍBV þaðan en hann hefur leikið á láni síðustu fimm tímabil, fyrst hjá Haukum, síðan Þrótti Vogum, síðan Kórdrengjum og síðustu tvö ár hjá ÍBV, bæði í Bestu deildinni og Lengjudeildinni.
Bjarki er ekki bara frábær leikmaður heldur einnig frábær liðsfélagi og hefur hann á tíma sínum hjá félaginu verið góður liðsstyrkur innan sem utan vallar.
Það eru frábærar fréttir að Bjarki velji að taka sín næstu skref á knattspyrnuferlinum hjá ÍBV og skrifaði hann undir þriggja ára samning á dögunum. Knattspyrnuráð hlakkar til áframhaldandi samstarfs við Bjarka og býður hann velkominn til ÍBV á ný.