Marseille hefur mikinn áhuga á Paul Pogba og leikmaðurinn vill fara þangað. Þetta segir franski miðillinn RMC Sport.
Pogba má spila fótbolta aftur í mars eftir að bann hans í kjölfar þess að hafa fallið á lyfjaprófi var stytt úr fjórum árum í 18 mánuði. Var hann á mála hjá Juventus þegar hann var dæmdur í bannið en þeim samningi hefur verið rift.
Hann er því í leit að liði og hefur Marseille áhuga, en eigandi félagsins, Fank McCourt, er sagður gríðarlegur aðdáandi miðjumannsins.
Hjá Marseille myndi Pogba meðal annars hitta fyrir fyrrum liðsfélaga sinn hjá Manchester United, Mason Greenwood.
Pogba gekk í raðir Juventus árið 2022 eftir sex ára dvöl hjá United.