Daninn Nicklas Bendtner var á knattspyrnuferli sínum oftar í fréttum fyrir það sem hann gerði utan vallar frekar en innan hans. X-síðan The Upshot rifjar reglulega upp sögur af stjörnum úr íþróttaheimunum utan vallar og var ein slík af Bendtner rifjuð upp.
Bendtner var lengst af hjá Arsenal og á þeim tíma stundaði hann skemmtanalífið mikið. Eitt sinn fór hann heim með konu eftir gott skrall og þau sváfu saman. Allt virtist í blóma en mánuði síðar hringdi konan og tjáði honum að hún væri ólétt.
Ekki nóg með það, hún hótaði að fara í fjölmiðla með málið ef Bendtner myndi ekki borga fyrir sig brjóstastækkun. Bendtner vildi engin vandræði og varð við þessu.
Hann rifjaði þetta hins vegar upp í bók sinni síðar. Þar talaði hann um að það hafi verið hættulegt að fara heim með konum af djamminu sem frægur maður og að hann hafi eftir þetta frekar viljað halda sig við vændiskonur.
Bendtner er 36 ára gamall en hann lagði skóna á hilluna 2019, þá leikmaður FCK í heimalandinu.