Landsliðsmaðurinn Logi Tómasson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Logi er ekki bara atvinnumaður í fótbolta heldur líka tónlistarmaður. Það vakti athygli í haust þegar Logi, sem spilar með Stromsgodset í norsku úrvalsdeildinni, gaf út lag með pabba sínum, Tómasi Hermannssyni.
„Ég sendi honum jólakort í fyrra. Ég var nýkominn út og það var smá erfitt. Ég sendi honum jólakort, ég er mikið fyrir þau. Ég er ekki væminn gæi og ekki mikið að tala um tilfinningarnar mínar en þegar ég geri jólakortin set ég það í það,“ sagði Logi einlægur.
„Þetta lag varð til úr þessum texta sem ég skrifaði til hans. Við erum bestu vinir og hann hefur hjálpað mér svo mikið með allt. Mér þykir mjög vænt um lagið, þetta er allt öðruvísi en hin lögin mín.“
Umræðan í heild er í spilaranum og lagið sem um ræðir er hér að neðan.