„Ég er sjúklega spenntur, gaman að fara í klúbb sem matchar mín gildi,“ segir Oliver Sigurjónsson nýr leikmaður Aftureldingar en hann var kynntur til leiks í dag. Liðið er í fyrsta sinn komið upp í efstu deild.
Það var blásið í herlúðra í Mosfellsbæ í dag þar Oliver, Axel Andrésson, bróðir hans Jökull og Þórður Gunnar Hafþórsson sömdu við félagið.
Oliver kemur frítt til Aftureldingar frá Breiðablik sem er eina félagið sem hann hefur spilað með á Íslandi.
„Það er tilfinning að fá að vera í klúbb sem hefur þennan metnað og stendur fyrir ákveðna hluti. Þegar þeir komu á borðið þá tók ekki langan tíma að sannfæra mig.“
Oliver hafði rætt málin við Anton Ara Einarsson markvörð Breiðabliks, Anton er öllum hnútum kunnugur í Mosfellsbæ en bróðir hans, Magnús Már stýrir liðinu.
„Þér að segja og þeim sem horfðu á þetta, þá ræddi ég við Anton Ara og spurði hvort bróðir hans hefði einhvern áhuga á að fá mig. Þegar sá áhugi kom, þá gat ég ekki gert annað en að stökkva á þá.“
„Maður hefur horft á nokkra leiki og vera í klefa með strákum úr Aftureldingu, sem tala vel um klúbbinn og það sem er gert hér.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.