Það er ekki útséð með það hvort Ederson eða Stefan Ortega verði í marki Manchester City gegn Nottingham Forest annað kvöld í ensku úrvalsdeildinni.
Pep Guardiola smellti Ederson óvænt á bekkinn í stórleiknum gegn Liverpool og stóð Ortega milli stanganna í 2-0 tapi, fjórða tapi City í röð í ensku úrvalsdeildinni.
Guardiola ræddi við blaðamenn í dag í aðdraganda leiksins á morgun og var hann meðal annars spurður út í viðbrögð Ederson við bekkjarsetunni á sunnudag.
„Hann brást mjög vel við. Við höfum þekkt hvorn annan í 8-9 ár,“ sagði spænski stjórinn og hélt áfram, en gaf lítið upp.
„Ederson er númer eitt og Stefan númer 2. Kannski verður Stefan samt áfram í markinu, við sjáum til.“