Enskir miðlar fjalla nú um heldur undarlegt mál sem snýr að kynþáttaníði stuðningsmanns á leik Chester og Warrington í ensku utandeildinni á laugardag. Einstaklingurinn sem átti í hlut fannst síðar látinn.
Um er að ræða stuðningsmann Chester sem beindi kynþáttaníði sínu að Bohan Dixon, leikmanni Warrington. Fyrrnefnda félagið gaf út yfirlýsingu eftir leikinn á laugardag.
„Okkur þótti miður og við vorum reið að sjá kynþáttaníði beint að leikmanni Warrington í leik liðanna. Við höfum komist yfir myndband af atvikinu og komist að því hver á í hlut. Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú málið ásamt lögreglu,“ sagði meðal annars í henni.
Í dag gaf félagið svo út yfirlýsingu þess efnis að umræddur einstaklingur væri látinn.
„Það syrgir okkur mikið að hafa frétt af andláti einstaklingsins sem átti í hlut. Hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum.“
Lögreglan segir í yfirlýsingu að einstaklingurinn hafi látist í íbúð í Wales en ekki er grunur um að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Þar kemur einnig fram að yfirheyrsla hans hafi verið á dagskrá.