Því er nú haldið fram í frönskum miðlum að Mohamed Salah, stjórstjarna Liverpool, eigi í viðræðum við Paris Saint-Germain um að ganga í raðir félagsins næsta sumar.
Eins og flestir vita verður Salah samningslaus á Anfield næsta sumar og hefur hann gefið sterklega í skyn að hann gæti farið.
Egyptinn hefur til að mynda verið orðaður við Sádi-Arabíu en nú segir L’Equipe að PSG sé að reyna að fá hann og að leikmaðurinn hafi mikinn áhuga á að flytja í frönsku höfuðborgina. Heimildamaður blaðsins segir góðar líkur á að skiptin eigi sér stað.
PSG vill bæta við sig stórstjörnu eftir brottför manna á borð við Neymar, Lionel Messi og Kylian Mbappe undanfarin ár.
Salah er að eiga frábært tímabil með Liverpool og hefur skorað 11 mörk í ensku úrvalsdeildinni, þar sem liðið er langefst.