Arnar Þór Viðarsson fyrrum landsliðsþjálfari ræðir uppsögn sína og allan þann storm sem hann fór í gegnum í starfi í viðtali við Chess after Dark. Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar ræðir uppsögn sína hjá KSÍ á síðasta ári.
Arnar var rekinn úr starfi í mars á síðasta ári þegar Vanda Sigurgeirsdóttir og stjórn hennar ákvað að reka Arnar og ráða Hareide. Uppsögnin vakti athygli og þá sérstaklega tímasetning hennar, eftir tvo leiki í undankeppni.
Arnar var í sínu fyrsta stóra starfi í þjálfun þegar sambandið logaði stafnanna á milli. Leikmenn voru sakaðir um ofbeldisbrot í kjölfarið þurfti Guðni Bergsson að segja af sér og öll stjórnin sagði af sér í kjölfarið.
„Það var erfitt, andlega var það erfitt. Það sem gerist er að formaðurinn er láttin fara, stjórnin segir af sér. Klara (Framkvæmdarstjóri) fer í leyfi og þetta gerist allt í landsleikjaglugga,“ segir Arnar í Chess after dark þegar hann byrjar að ræða málin.
Arnar segir að hann og Ómar Smárason hafi setið tveir eftir með málin í sínum höndum, engin stjórn til að svara fyrir mál sem komu kannski knattspyrnuþjálfara ekkert við. „Við vorum að velja landsliðið þegar að þetta springur, þarna eru tíu dagar í COVID. Allt lokað, þú gást aldrei setið með fólki og rætt hlutina. Þetta voru bara einhverjir Teams fundir. Þetta var skrýtin tími,“ segir Arnar.
„Ómar, fjölmiðlafulltrúi og ég þurfum að svara fyrir þetta. Það var enginn eftir, þú situr blaðamannafundi og öllum var sama um fótbolta. Við erum að fá blaðamenn sem hafa ekkert með íþróttir að gera, þeir vilja svör. Þetta var prime time TV, þetta var í kvöldfréttum dag eftir dag.“
Arnar segir að það hafi verið oft á tíðum ómögulegt fyrir sig að svara þessum málum.
„Ég hef rætt þetta við Ómar og við gátum hlegið af þessu seinna hvað þetta var erfitt, þegar þú ert að fá spurningar, þetta hafði aldrei gerst áður, það voru engin svör, Hverju áttu að svara? Ég var landsliðsþjálfari, mér þótti vænt um leikmennina mína. Ég mun aldrei henda leikmanni fyrir rútuna, svo hinu megin eru blaðamenn sem spyrja hvort þú sért á móti ofbeldi og þessu ofbeldismönnum. Já, ég er á móti ofbeldi en hvað viljiði að ég segi. Ég veit ekki alla söguna, hver og einn einasti einstaklingur sem er ásakaður um eitthvað. Ég er í engri stöðu til að segja hvort þú sért sekur eða saklaus, mér þykir vænt um leikmanninn og vil ekki taka hann af lífi og segja svo eitthvað sem þú veist ekki. Svo hinu megin er fórnarlamb sem þú berð líka virðingu fyrir.“
Arnar tók svo dæmi um það hvernig hann sér svona mál. „Ég á þrjú börn, þú ert annaðhvort með á móti var staðan en mér finnst það ekki svona einfalt. Ég á dóttir sem er tvítug, ef hún kemur heim og segir mér að eitthvað hafi gerst þá stend ég með henni. Ég á líka son sem er 17 ára, ef hann kemur heim og segist vera sakaður um eitthvað sem hann segist ekki hafa gert. Má ég þá ekki standa með honum? Það voru enginn svör, þetta voru erfiðir tímar. Það voru allir horfnir, ég og Ómar og sátum með tölvuna fyrir framan okkur, um leið og og þú segir eitt orð vitlaust þá er það farið.“
„Ég var frægasti og óvinsælasti maður landsins.“
Það var um mitt ár árið 2022 þegar það lak í fréttir að Vanda hafði rætt við Heimi Hallgrímsson um að taka við liðinu. „Það var 2022, það er glugginn þegar við förum og vinnum Venezúela í æfingaleik og náum jafntefli gegn Albaníu, stigið sem gefur okkur umspil um laust sæti á EM. Þá var 98 prósent öruggt að við myndum fá það,“ sagði Arnar í viðtalinu.
„Við vorum á leiðinni heim úr þeim glugga þegar Vanda sagði mér frá því, hún vissi þá að þetta væri að leka í fjölmiðla. Það var gott mál að hún sagði það við mig, það var betra en að fá símtal frá blaðamanni. Þarna í rauninni, þetta eru fyrsta skiptið sem ég vissi. Árið 2022 var árangurinn allt í lagi, við gerum mikið af jafnteflum í leikjum sem við áttum að vinna. Við töpuðum einum leik á þessu ári held ég, á þessum tímapunkti fannst mér við vera á réttri leið. Við vorum bjartsýnir, sérstaklega hópurinn. Aron Einar var komin inn, Alfreð og Jóhann Berg voru mættir aftur. Úrslitin voru að lagast, við vorum ekki komnir þangað að vinna alla leiki.“
Arnar segist þarna hafa áttað sig á því að stjórn KSÍ myndi vilja reka hann við næstu mistök. „Það kom mér á óvart þarna, þarna vissi ég að næsti leikur sem ég tapa að þá er þetta nánast búið. Þetta er í september, við spilum svo í nóvember og unnum Baltic Cup. Gerðum bara jafntefli og vinnum bikar.“
„Í nóvember voru vibe, að það væri eitthvað skrýtið. Ég átti svo fund með stjórninni í desember, bjuggum til skýrslu hvernig við vorum að sjá hlutina. Hvernig málin stóðu, hvað væri gott, hvað mætti bæta og svona. Ég fann það á þessum fundi, fyrsta spurningin eftir allt sem við ræddum var um að það væri árangur núna.“
Það var svo í mars árið 2022 þegar íslenska liðið fékk skell gegn Bosníu úti, Arnar áttaði sig á því þá að þetta væri líklega búið en svaraði þó vel með 7-0 sigri gegn Liechtenstein í næsta leik á eftir áður en hann var rekinn.
„Ég átti von á því, þú finnur vibe úr þeim sem eru í stjórn og eru með okkur. Þetta var erfitt tap, það eru hlutir í þeim leik sem ég myndi aldrei gera aftur. Taktíkin var ekki vel sett upp, þeir voru með nýjan þjálfara og við vissum ekki alveg hvað þeir væru að fara að gera, „ sagði Arnar.
„Eftir á að hygga, þá áttu ekki breik. Maður veit það eftir á, ég er keppnismaður og vill ekki tapa. Sá sem var í mestu fýlu að tapa í Bosníu var ég, maður liggur upp í rúmi eina nótt því þú veist hvað er að fara að gerast. Það hefði verið betra, það voru raddir sem náðu inn til Vöndu sem náðu að snúa ekki bara henni. Heldur restinni af stjórninni, það hefði verið bera fyrir alla og nýjan þjálfara að byrja nýja undankeppni. Ef maður hugsar hvað er best fyrir landsliðið, ég er ekki mikilvægur í allri þessari sögu landsliðsins. Þjálfarinn er einhver sem stýrir liðinu hverju sinni, það hefði sterkari ákvörðun. Sterkari ákvörðun hjá stjórninni að gera það þá, mér fannst þetta ekki sterk stjórnun. Tímasetningin var algjörlega galin.“
Arnar segir samband sitt við Vöndu hafa verið gott en hann hefði talið það sterkari stjórnun að reka sig úr starfi áður en undankeppnin hófst ef traustið var farið.
„Ég átti alltaf ágætis samskipti og samband við Vöndu, mjög margir góðir eiginleikar fyrir Vöndu. Gagnvart svona ákvörðun sem þú þarft að taka í svona starfi, ég er ekki að segja að þetta hafi verið röng ákvörðun en þú þarft sterka karaktera. Það var verið að hlusta á of mikið röddum, þú þarft að vera með þína skoðun og bakka hana upp. Það er sterk stjórnun. Það voru margir í stjórninni að stíga sín fyrstu skref, Ívar Ingimars var þarna inni og hafði sterkar skoðanir á því hvernig ætti að þjálfa landsliðið. Það var mikið af fólki sem hafði aldrei verið í stjórn KSÍ, þetta er starf sem allir hafa skoðun á því. Það er mikilvægt að hafa þekkingu í stjórn.“
„Ég fann það, á fundinum í desember að þá finnur maður að þetta eru skrýtnar spurningar eftir það sem við vorum að segja við ykkur. Ef þú ert búinn að vera í fótbolta frumskóginum allt þitt líf, þá veistu að þetta er ekki eðlilegt. Fólk mátti hafa skoðun að við værum ekki á réttri leið en þá vill maður fá skýrari svör og útskýringar á því sem ekki sé í lagi. Faglegt álit á því sem þú ert að gera rangt og ef þú lagar það ekki þá er það búið.“
Arnar horfir stoltur til baka á tíma sinn með landsliðið. „Ég er stoltur af því að komist í gegnum þetta, þetta var erfitt oft á tíðum. Ég er ánægður að mínu mati, hvernig ég upplifi hlutina. Að ég hafi höndlað pressuna, á ákveðnum tímapunktum var þunginn á öxlunum mikill. Ég gat kúplað mig út, var viku á Íslandi og viku í Belgíu. Ég er stoltur af mínu sambandi við allt teymið og nánast allan hópinn, Alberts málið var óþarfi og maður hefði viljað höndla það aðeins betur. Hann og hans fólk hefði líklega getað höndlað það betur.“