Mason Greenwood er sagður skoða það að fara í mál við Manchester United í kjölfarið af því að Benjamin Mendy vann mál sitt við Manchester City.
Ensk blöð segja frá þessu í dag en Greenwood var seldur frá United til Marseille í sumar.
Mendy vann mál sitt við City en félagið borgaði honum ekki laun þegar hann var ákærður fyrir kynferðisbrot. Mendy var hreinsaður af öllum ásökunum og vann málið.
Mál Greenwood og Mendy eru þó ekki eins, City hætti að borga Mendy laun en Greenwood fékk laun sín frá United þegar hann var sakaður um kynferðisbrot.
Mál Greenwood var fellt niður en hann er sagður skoða það að sækja Untied til saka fyrir það að hafa misst framtíðar tekjur eftir að hafa verið settur til hliðar vegna málsins.
Málið hefur haft áhrif á fótboltaferil Greenwood en hann spilaði ekki í rúmt ár þegar málið kom upp. Á sínum tíma var Greenwood einn efnilegasti leikmaður í heimi.