Neymar, leikmaður Al-Hilal í Sádi Arabíu, er búinn að gefa fyrrum félagi sínu grænt ljós og er reiðubúinn að yfirgefa sitt núverandi félag.
Þetta fullyrðir brasilíski fjölmiðillinn UOL en talið er að Al-Hilal sé að reyna að losna við Neymar þessa stundina.
Neymar meiddist illa undir lok síðasta árs og sneri aftur á dögunum en það tók hann ekki langan tíma að meiðast aftur og spilar stjarnan líklega ekki meira á árinu.
Santos, fyrrum félag Neymar í Brasilíu, er opið fyrir því að taka við leikmanninum sem er 32 ára gamall í dag.
Neymar er tilbúinn að taka á sig mikla launalækkun til að semja í heimalandinu en hann er á risalaunum í Sádi þessa stundina.
Al-Hilal er á því máli að félagið geti ekki treyst á að Neymar komi sér í stand á nýjan leik og er því jafnvel opið fyrir því að rifta samningi leikmannsins.