Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar var á vappi um Krónuna í fyrradag þegar Jökull Andrésson, knattspyrnumaður var að ræða launin sín í símann.
Jökull er án félags eftir að hafa rift samningi sínum við Reading á Englandi, hann var á láni hjá Aftureldingu í sumar og hjálpaði liðinu að komast upp. Jökull er orðaður við endurkomu í Aftureldingu.
„Þetta var rosalegasta sem ég hef lent í, ég veit ekki hvað ég ætla að gefa upp,“ sagði Kristján í síðasta þætti Þungavigtarinnar.
Hann segir svo frá því hvernig Jökull gólaði í símann hvað væri verið að bjóða honum fyrir að skrifa undir.
„Ég ætla að biðja fólk og menn sem eru að semja um kaup og kjör að vera ekki í Krónunni í Vallarkór, að segja hvað þú fáir í sign on fee hér og þar. Ég var að í frosnu ávöxtunum og hann var hinu megin við kælirinn, hann var gargandi hvað hann fengi fyrir að skrifa undir.“
„Ég ætla ekki með töluna í loftið, þetta var það fyrsta sem ég heyrði. Hann labbaði í hringi þegar hann sá mig.“