Erik ten Hag er ekki maðurinn á bakvið kaup Manchester United á sóknarmanninum Joshua Zirkzee sem kom í sumar.
The Sun á Englandi fullyrðir þessar fréttir en Ten Hag er sjálfur atvinnulaus í dag eftir brottrekstur í síðustu viku.
Gengi United undir Ten Hag var ekki ásættanlegt og var Hollendingurinn látinn fara – Ruben Amorim tekur við keflinu þann 11. nóvember.
Samkvæmt Sun þá var Ten Hag mjög ósáttur með kaupin á Zirkzee sem kom til United frá Bologna á Ítalíu.
Ten Hag var á því máli að Zirkzee væri of þungur er hann mætti til enska félagsins og ekki í standi til að spila fyrir enska stórliðið.
Sóknarmaðurinn er 23 ára gamall en hann hefur aðeins skorað eitt mark í 14 leikjum fyrir United á þessu tímabili.
Ten Hag taldi að Zirkzee væri um sex kílóum of þungur en hann spilaði vel með Bologna í fyrra og skoraði 12 mörk í öllum keppnum.