Knattspyrnumaðurinn Omar Sowe hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV. Hann kemur til liðs við félagið frá Leikni Reykjavík þar sem hann hefur leikið síðustu tvö tímabil.
Omar er frá Gambíu en hann er 24 ára framherji sem skoraði 25 deildarmörk í 41 leik fyrir Leikni á síðustu tveimur leiktíðum. Omar kom fyrst til Íslands árið 2022 og lék með Breiðabliki þar sem hann skoraði fjórum sinnum í 20 leikjum.
Omar var á mála hjá NY Red Bulls í töluverðan tíma þar sem hann lék með varaliði félagsins og U23 ára liði þeirra en auk þess lék hann einn leik með aðalliði félagsins í MLS deildinni 2021-22.
Þorlákur Árnason tók við ÍBV á dögunum en liðið er komið upp í Bestu deildina, Sowe er fyrsti leikmaðurinn sem liðið fær.
„Knattspyrnuráð bindur miklar væntingar við komu leikmannsins til ÍBV og vonast til þess að samstarfið verði farsælt,“ segir á vef ÍBV.