Lautaro Martinez, leikmaður Inter, var ósáttur með það að vera sjötti í valinu á Ballon d’Or nú á dögunum.
Martinez átti frábært tímabil með Inter í fyrra og skoraði 27 mörk ásamt því að leggja upp önnur þrjú – hann vann einnig Copa America með Argentínu.
Lionel Messi, liðsfélagi Martinez, segir að sinn maður hafi átt skilið að vinna verðlaunin en kjörnefnd Ballon d’Or var ekki á sama máli.
Marco Materazzi, fyrrum varnarmaður Inter, hvetur Martinez til að hlusta á Messi frekar en að pæla of mikið í þessu vali sem er af mörgum talið nokkuð umdeilt.
,,Hann á klárlega heima á topp fimm listanum. Það er ekki hægt að kvarta yfir Rodri sem vann Meistaradeildina og EM,“ sagði Materazzi.
,,Lautaro vann einnig titla með Inter og Argentínu og það er hægt að skilja að hann vilji meira. Ballon d’Or skiptir ekki öllu máli.“
,,Lautaro þarf að hlusta á það sem Messi sagði því það sem hann hefur að segja er mikilvægara en Ballon d’Or.“