Hilmar Árni Halldórsson, sem lagði skóna á hilluna á dögunum, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, sem kemur út alla föstudaga á 433.is.
Hilmar, sem gerði garðinn frægan með Stjörnunni, spilaði framan af með Leikni og tók fyrstu skref sín í meistaraflokki í Breiðholtinu. Þar var hann meðal annars þjálfaður af Sigursteini Gíslasyni heitnum, en Sigursteinn lést eftir baráttu við krabbamein snemma árs 2012, 43 ára gamall.
„Hann var ótrúlega góður maður, þvílík lífsorka í honum,“ sagði Hilmar í þættinum.
„Við vorum ótrúlega nálægt því að komast upp undir hans stjórn. Við klikkuðum á síðasta leiknum fyrir pökkuðum Leiknisvelli.“
Hilmar kunni gríðarlega vel við Sigurstein og lýsti erfiðum tíma er hann kvaddi.
„Það var ótrúlega erfitt tímabil. Það var erfitt að navigera lífið á þeim tímapunkti. Þetta voru súrealískar aðstæður.“
Sigursteinn átti farsælan feril sem leikmaður og þjálfari. Hann lék lengst af með ÍA og KR og vann hvorki meira né minna en níu Íslandsmeistaratitla með þessum tveimur félögum.
Umræðan í heild er í spilaranum.