Uppistandarinn Jakob Birgisson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Það var farið um víðan völl í þættinum og stærsta frétt síðustu daga, uppsögn Age Hareide sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins, var að sjálfsögðu tekin fyrir. Mikið hafði verið rætt og ritað um að Hareide væri á útleið og að KSÍ gæti hugsanlega látið hann fara. Svo fór að sambandið tilkynnti í vikunni að Norðmaðurinn væri hættur.
Nú er KSÍ komið í þjálfaraleit en nafn Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, hefur heyrst mest í umræðunni um arftaka Hareide. Þá er Freyr Alexandersson, sem hefur náð frábærum árangri með Lyngby í Danmörku og nú Kortrijk í Belgíu, reglulega nefndur til sögunnar.
„Þegar maður heyrði fyrst að Hareide væri hættur heyrði maður að Arnar væri líklegastur. Svo allt í einu var Freysi kominn í samtalið og þótti jafnvel líklegri. Nú heyrir maður aftur bara um Arnar,“ sagði Hrafnkell í þættinum.
„Hann hlýtur að vera frekar spenntur fyrir þessu. Sérstaklega þar sem hann fékk ekki að fara til Norrköping í fyrra. Það væri fínt fyrir hann að segja bless í bili við Víking, hann er búinn að gera ótrúlega hluti,“ sagði Jakob, en Arnar hefur tvisvar unnið Íslandsmeistaratitilinn, fjórum sinnum bikarmeistaratitilinn og er nú nálægt því að komast í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar með Víking.
„Ef hann fer í þetta umspil er hann eiginlega bara búinn að klára Ísland,“ sagði Hrafnkell að endingu um málið.