Ásgeir Eyþórsson hefur framlengt samning sinn við Fylki um eitt ár.
„Eru þetta gríðarlega jákvæð tíðindi og ljóst að Ásgeir verður liðinu afar dýrmætur í baráttunni í Lengjudeildinni næsta sumar,“ segir á vef Fylkis.
Ásgeir á að baki 359 leiki fyrir Fylki, þar af 188 í efstu deild og hefur verið lykilmaður liðsins í mörg ár og oft borið fyrirliðabandið.
Þessi stóri og stæðilegi miðvörður sem stundum er kallaður „Seðlabankastjórinn“ lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í Pepsi deildinni árið 2011 og hefur verið einn tryggasti liðsmaður Fylkis.