Lee Sharpe fyrrum leikmaður Grindavíkur og Manchester United hefur ráðlagt Ruben Amorim hvernig hann getur fjármagnað leikmannakaup í janúar.
Sharpe var mikið efni þegar hann kom upp hjá United en ferill hans náði ekki því flugi sem vonir stóðu til um.
Sharpe endaði feril sinn hjá Grindavík þar sem hann stóð sig illa. „Antony hefur ekkert getað hjá United, við höfum séð smá takta en aldrei neinn stöðugleika,“ segir Sharpe.
United verður að selja leikmenn í janúar til að geta keypt nýja leikmenn.
„Þegar þú skoðar kerfið sem Ruben Amorim spilar, þá mun Antony lítið spila. Félagið á að reyna að losna við hann á ágætis verði í janúar og losna við hann af launaskrá. Það gæfi Amorim tækifæri til að fá 1-2 leikmenn í janúar sem henta kerfinu hans.“