Það gengur einfaldlega ekkert hjá Manchester City þessa dagana en liðið spilaði við Feyenoord í Meistaradeildinni í kvöld.
City virtist ætla að fagna öruggum sigri og komst í 3-0 á heimavelli og útlitið ansi bjart eftir fimm tapleiki í röð.
Hollenska liðið kom hins vegar öllum á óvart og jafnaði metin í 3-3 til að tryggja ótrúlegt stig í deildarkeppninni.
Feyenoord skoraði þrjú mörk á 14 mínútum og er City því ekki komið á beinu brautina eftir mjög erfitt gengi undanfarið.
Arsenal vann á sama tíma mjög sannfærandi sigur gegn Sporting sem missti þjálfara sinn Ruben Amorim á dögunum.
Arsenal vann 5-1 sigur á Sporting á útivelli og var í raun aldrei í vandræðum með heimaliðið.
Bayern Munchen vann stórleik kvöldsins gegn Paris Saint-Germain þar sem Joshua Kimmich skoraði eina markið.
Barcelona vann Brest 3-0, Bayer Leverkusen valtaði yfir Salzburg 5-0, Atalanta lagði Young Boys 6-1 og þá vann Inter lið Leipzig 1-0.