Mohamed Salah er ekki í heimsklassa að sögn Troy Deeney, fyrrum sóknarmanns Watford, en hann greinir frá þessu í pistli hjá the Sun.
Þessi skoðun Deeney hefur farið illa í marga en hann nefnir einnig fimm leikmenn sem eru í heimsklassa þessa stundina.
Alisson og Virgil van Dijk, liðsfélagar Salah hjá Liverpool, komast á listann og þá einnig tveir leikmenn Manchester City.
Miðjumaðurinn Rodri og Erling Haaland eru á þessum fimm manna lista og þá einnig Vinicius Junior, vængmaður Real Madrid.
Deeney hrósar Salah sem leikmanni en telur að hann sé ekki í heimsklassa ef þú horfir á aðra leikmenn í heimsfótboltanum í dag.
,,Vængmaðurinn er frábær leikmaður og tölfræðin talar sínu máli og hann hefur afrekað magnaða hluti hjá félaginu,“ sagði Deeney.
,,Í heimsklassa? Nei. Ég er ekki að ráðast á Salah, hann er toppleikmaður og frábær náungi. Ég lék oft gegn honum á mínum ferli og get skilið hversu góður hann er.“
,,Ég er hins vegar ekki að reyna að gerast vinur allra, þannig virka ég ekki, ég segi hlutina eins og þeir eru.“