Enzo Maresca, stjóri Chelsea, hefur lítinn áhuga á því sem landsliðsfyrirliði Englands, Harry Kane, hafði að segja á dögunum.
Kane gagnrýndi leikmenn enska landsliðsins sem ákváðu að draga sig úr hópnum fyrir leiki gegn Grikkjum og Írlandi í Þjóðadeildinni.
Einn af þeim var Cole Palmer, stjarna Chelsea, sem spilaði í 2-1 sigri sinna manna gegn Leicester í gær.
Maresca segir að hann sé lítið að spá í því sem Kane hefur að segja en Palmer var tæpur vegna meiðsla er hann var valinn í landsliðshópinn fyrr í mánuðinum.
,,Það sem ég hef að segja er að leikurinn kláraðist fyrir tíu mínútum og við unnum 2-1 sigur,“ sagði Maresca í gær.
,,Ég hef ekkert að segja um þetta. Ég er ekki að hugsa um Harry Kane eða það sem hann hafði að segja.“
Maresca var svo spurður út í hvort hann hafi sett pressu á Palmer að draga sig úr hópnum og þvertók fyrir það.