Einn vinsælasti þjálfarinn í dag ber nafnið Quique Setien en hann er afskaplega ofarlega á vinsældarlista annarra þjálfara.
Setien náði frábærum árangri með Real Betis á sínum tíma og fékk þá að stoppa stutt sem stjóri Barcelona.
Fjölmargir heimsfrægir þjálfarar eins og Pep Guardiola, Carlo Ancelotti, Xavi, Diego Simeone, Julen Lopetegui og Enzo Maresca hafa talað afskaplega vel um þennan 66 ára gamla Spánverja.
Setien var síðast á mála hjá Villarreal frá 2022 til 2023 en hefur undanfarið ár tekið sér pásu frá fótbolta.
Síðasta mánuðinn hefur Setien sést á leikjum á Englandi, bæði í efstu deild og þeirri næst efstu, og hefur hann áhuga á að taka að sér starf erlendis í fyrsta sinn.
,,Ég hef verið frá boltanum í eitt ár og á Spáni þá var ég ekki að finna fyrir ástríðunni. Við fylgjumst öll með ensku úrvalsdeildinni. Á Spáni þá horfirðu á eitt eða tvö lið en á Englandi, öll,“ sagði Setien.
,,Við heimsóttum England og vorum þar í sjö daga en þessi vika hefur komið mér á óvart. Ég varð ástfanginn af fólkinu og ástríðunni.“
Setien þykir vera gríðarlega gáfaður þegar kemur að taktík og eru margir aðrir þekktir þjálfarar sem hafa notast við hans hugmyndafræði á undanförnum árum.