Adam var lánaður til Perugia um mitt sumar og gildir samningurinn út þessa leiktíð í Serie C. Liðið ætlaði sér upp um deild fyrir tímabil en er sem stendur í 13. sæti B-riðilsins, 6 stigum frá sæti í löngu og ströngu umspili í Serie C um sæti í deild ofar.
„Það er allt vægast sagt tryllt hérna, bæði hjá stuðningsmönnum og klúbbnum. Það er líka búið að vera mikið í gangi í kringum félagið. Fyrstu 3-4 vikurnar var gamli þjálfarinn og forestinn, sá sem sótti mig, en svo var klúbburinn keyptur af Argentínumönnum. Þegar þeir voru búnir að vera í svona mánuð var þjálfarinn rekinn svo það eru komnir nýir eigendur og nýr þjálfari,“ sagði Adam, sem líður þó afar vel á Ítalíu.
„Ég byrjaði mjög vel en ég væri auðvitað alltaf til í að spila meira. Það er erfitt að útskýra þetta því þetta er allt öðruvísi fótbolti en á Íslandi. Ég væri til að hlutverkið mitt væri stærra en ég er þolinmóður og veit hvað þetta tekur langan tíma, að aðlagast og svona. Ég er líka á stað á Ítalíu þar sem nánast er ekki töluð enska. Það er talað við mig á ítölsku, ég kann hana svona 60 prósent. En ég finn að ég er á góðum stað í góðu félagi svo ég er góður.“
Adam segir umhvefið í ítalska boltanum ekki fyrir hvern sem er. Þjálfarar og stuðningsmenn taka hressilega á mönnum þegar illa gengur.
„Maður hélt að Ísland væri brútal að einhverju leyti en það er „kid stuff“ við hliðina á þessu. Sem dæmi er leikmaður hérna sem er búinn að spila í mörg ár í Serie A, búinn að spila með Fiorentina, í La Liga, hann fékk rautt eftir 10 mínútur fyrir svona 5-6 umferðum og hann er ekki búinn að sjá völlinn síðan. Hann var svoleiðis látinn heyra það fyrir framan alla. Ég hugsa að ef ég myndi lenda í þessu færi ég bara að gráta.“
Perugia á sér mikla sögu og hefur frá stofnun oft spilað í efstu deild. Stuðingsmennirnir eru blóðheitir og skiptir þar engu máli í hvaða deild liðið er.
„Stuðningsmennirnir eru trylltir. Fyrir tveimur leikjum síðan voru 12 þúsund manns á vellinum í nágrannaslag. Það voru 400 manns mættir á hótelið okkar daginn fyrir leik og þúsund að taka á móti okkur tveimur tímum fyrir leik. Maður gerði sér ekki alveg grein fyrir hvað þetta er risastórt, þetta er sögufrægur klúbbur og margir sem eru búnir að halda með þessu liði í mörg ár, sama hvort það sé í Serie A eða Serie C. Maður finnur hvað þetta skiptir þau ógeðslega miklu máli. Ef við hefðum tapað þessum nágrannaslag, sem fór 0-0, þá hefðum við ekki getað farið út í matvörubúð daginn eftir. Eins og staðan er núna er alveg erfitt að labba um göturnar. En ég fann líka þegar ég skoraði þrennu snemma á tímabilinu að það er gríðarlega gaman þegar gengur vel, ég borgaði ekki á veitingastöðum í heila viku,“ sagði Adam.
Adam var þá spurður út í horfurnar hjá félaginu og hvort það hafi sett upp einhver langtímamarkmið.
„Stefnan var sett á að fara upp í Serie B á þessu tímabili. Svona klúbbur vill alltaf fara upp í Serie B og árið eftir í Serie A. Ég geri mér samt ekki alveg grein fyrir hvað langtímaplanið er. Nýju eigendurnir eru nýteknir við og væntanlega vilja fara upp en það kemur sennilega í ljós í janúar hvernig þeir ætla að gera þetta.“
Hvað framtíð Adams varðar hefur honum verið tjáð að það standi til boða að vera áfram hjá Perugia eftir leiktíðina. Eins og fyrr segir er kappinn samningsbundinn Val.
„Mér var tilkynnti fyrir svolítlu síðan að þeir ætluðu sér að kaupa mig. Ég tek bara einn dag í einu og þarf fyrst að sjá hvaða möguleiki er bestur fyrir mig. Að einhverju leyti er ég orðinn smá þreyttur á að vera ekki lykilmaður í einhverju liði. En þeir hafa alltaf sagt við mig að þeir sjái mig sem leikmann Perugia til lengri tíma. Ég verð að taka ákvörðun þegar nær dregur en eins og staðan er er ég gríðarlega sáttur,“ sagði Adam.
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum.