Helga Hrannarr Jónsson, formaður Stjörnunnar fór mikinn í áhugaverðu viðtali við Fótbolta.net í gær, þar gagnrýndi hann Óla Val Ómarsson fyrir það að velja Breiðablik frekar en Stjörnuna.
Þessi uppaldi leikmaður Stjörnunnar er að ganga í raðir Breiðabliks og fór það illa í skapið á Helga.
Breiðablik er að semja við nokkra leikmenn en Ágúst Þorsteinsson kom frá Genoa í gær, Óli Valur og Valgeir Valgeirsson eru einnig að skrifa undir hjá félaginu.
Rætt var um ummæli Helga og kaup Breiðablik í Þungavigtinni í dag. „Það eru komnir þrír alvöru leikmenn, samkeppnin verður hörð,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson fyrrum leikmaður Breiðabliks.
Kristján furðaði sig á ummælum Helga um uppalinn leikmann. „Hann urðar yfir Óla Val, hefði átt að treata hann betur í sumar. Ísak Snær kom til Breiðabliks á láni frá Rosenborg í sumar, hann hélt sínum launum. Blikar greiddu hluta af þeim, Óli Valur kemur á láni frá Sirius til Stjörnunnar, hann átti varla fyrir salti í grautinn. Hann hélt ekki öllum sínum launum.“
„Stjarnan, Breiðablik og Valur vildu kaupa hann en fótboltalegar ástæður eru fyrir því að hann valdi Breiðablik. Þar er Meistaradeild, Valur í Sambandsdeild og Stjarnan ekki í Evrópukeppni. Maður skilur hann vel.“
„Með undirhandarskot á umboðsmann Óla Vals, Breiðablik var í raun eina liðið sem fékk að bjóða honum samning.“
Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA segir Blika vera að gera vel. „Ef að þessir leikmenn eru að koma í Breiðablik, þá eru þeir á góðri vegferð og berjast á toppnum. Hópurinn sterkur, vel þjálfað lið. Ég hef meiri áhyggjur af Stjörnunni.“