Ásgeir Frank Ásgeirsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni til næstu tveggja ára.
Ásgeir, sem er alinn upp í Fossvoginum, lék upp yngri flokkana hjá Víkingum í Reykjavík ogi lék með þeim 2 leiki í Bestu deildinni með uppeldisfélaginu.
Þess utan lék Ásgeir í 3 ár með liði Aftureldingar sem fór upp í efstu deild nú í haust auk þess sem hann þjálfaði lið Hvíta Riddarans í fyrra. Ásgeir á að baki 5 leiki fyrir U-19 ára landslið karla.
„Er þetta mikill fengur fyrir Fjölni að fá svona sterkan einstakling og karakter í Grafarvoginn enda mun Ásgeir einnig vinna þvert á flokka og verða leiðandi í afreksstarfi Fjölnis í samstarfi við yfirþjálfara félagsins og þjálfara 2. og 3. flokks karla. Vill félagið á sama tíma þakka fráfarandi aðstoðarþjálfara félagsins, Einari Jóhannesi Finnbogasyni, fyrir samstarfið undanfarin ár. Einar hefur verið afar vinsæll meðal Fjölnismanna eftir að hafa verið hægri hönd Úlla bæði í 2. flokki karla og í meistaraflokki sl. sjö ár,“ segir á vef Fjölnis.