Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings hefði áhuga á starfinu sem landsliðsþjálfari Íslands ef það verður í boði núna á næstu vikum. Á sama tíma segist hann mjög ánægður í Víkinni og vilji ekki fara bara eitthvað.
Mikil umræða er um starfið hjá Age Hareide og hvort KSÍ muni nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans. Hareide eða KSÍ hafa ekki viljað ræða þetta.
„Eins og staðan er í dag, ekki nema ég verði rekinn fyrir að koma okkur ekki í umspilið í Sambandsdeildinni,“ sagði Arnar í hlaðvarpinu Seinni níu um það hvort hann verði áfram í Víkinni.
Hann var svo spurður að því hvort hann hefði áhuga á starfinu í Laugardalnum. „Þetta er erfið spurning því þú ert með landsliðsþjálfara núna í starfi, auðvitað hefur þú áhuga á því. Í fullkomnum heimi sæ ég landsliðsþjálfarastarfið þannig þegar allt skeggið sé orðið grátt. Þá er verið að verðlauna þig fyrir gott ævistarf.“
Hann segir íslenska liðið á spennandi stað og að næsta stórmót verði rosalegt. „Landsliðið er á spennandi stað, spennandi leikmenn að koma upp. HM 2026 verður líklega stærsta íþróttakeppni í sögunni, Kaninn kann að halda mót. Ég er einbeittur á Víkina og ég sé ekki ástæðu til að fara nema eitthvað mjög spenandi komi.“