Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkings í fótbolta fer alltaf í golf fyrir leiki, þjálfarinn sigursæli uppljóstraði þessu í hlaðvarpinu Seinni níu.
Arnar hefur átt ótrúlega farsælan feril sem þjálfari eftir að hann tók við Víkingi en liðið er nú í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þar hefur liðið sótt sex stig, sögulegur árangur hjá íslensku félagi.
Þjálfarar hafa flestir sína rútínu á leikdegi og Arnar er með slíka. „Ég spila mikið golf fyrir leiki, á æfingasvæðinu,“ segir Arnar í Seinni níu.
„Þetta er regla hjá mér fyrir leiki, tek 100 bolta á æfingasvæðinu . Tveimur tímum fyrir leik, mæli með því fyrir alla þjálfara. Golf er andleg íhugun.“
Arnar er liðtækur golfari. „Þú ert bara að hugsa um höggið, hversu ósáttur þú ert með lélegt högg. En það fer ekki út í neina aðra þætti lífsins en golfið.“
Arnar er nú sterklega orðaður við starfið hjá íslenska landsliðinu ef Age Hareide lætur af störfum.