Það er fátt annað rætt í íslenskum fótbolta þessa stundina en framtíð Age Hareide í starfi og hvort hann haldi áfram eða ekki.
Skiptar skoðanir eru á því hvað skal gera en Hareide hefur stýrt liðinu í eitt og hálft ár og hefur gengið verið misjafnt.
Margir eru á þeirri skoðun að Norðmaðurinn eigi að fá lengri tíma með liðið en KSÍ er með uppsagnarákvæði í samningi hans nú í lok mánaðar.
Tveir málsmetandi aðilar sem tengjast Alberti Guðmundssyni sóknarmanni Fiorentina vilja halda Hareide í starfi. „Ég persónulega væri mjög svekktur ef þetta er síðasti leikur sem við sjáum Age stýra íslenska liðinu,“ sagði Guðmundur Benediktsson íþróttafréttamaður og faðir Alberts í viðtali á Vísi í gær. Ummælin lét hann hafa eftir sér fyrir 4-1 tapið gegn Wales.
Guðmundur er á því að liðið sé á réttri leið. „Ég er á því að við séum á réttri braut. Það er enginn búinn að kynna fyrir mér þjálfara sem er betur til þess fallinn að sjá um þetta íslenska lið. Við erum á mikilvægu augnabliki með þetta lið. Við erum með lið sem á erindi að keppa um að fara á stórmót næstu árin.“
Það var svo eftir tapið gegn Wales í gær sem Albert Brynjar Ingason frændi Alberts fór yfir leikinn á Stöð2 Sport. „Ég er mikill Age maður, mér finnst skipta máli hvaða leikmenn vantar í hópinn. Hann hefur ekki haft Albert og Hákon í þessum glugga, mjög mikið af góðum leikjum,“ sagði Albert á Stöð2 Sport.
„Ég vill halda honum, mér finnst hann ná til leikmannam,“ sagði Albert Brynjar á Stöð2 Sport eftir leik.
Albert er besti leikmaður Íslands í dag en hefur ekki getað tekið þátt í verkefnum undanfarið vegna meiðsla og dómsmáls sem var höfðað gegn honum.