Hilmar Árni Halldórsson, sem lagði skóna á hilluna á dögunum, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, sem kemur út alla föstudaga á 433.is.
Hilmar lagði skóna á hilluna um síðustu helgi eftir 3-2 sigur Stjörnunnar á FH, þar sem hann einmitt skoraði. Eftir glæsilegan feril í Garðabænum snýr hann sér nú að þjálfun hjá Stjörnunni. Mun hann stýra 4. flokki kvenna og aðstoða við þjálfun á 3. flokki karla.
„Það var alveg skýrt hjá mér frá upphafi að mig langaði að koma að kvennaknattspyrnu líka. Það er umhverfi sem mér finnst þess virði að stíga inn í. Mig langar að sjá hversu langt er hægt að fara með ýmsar pælingar,“ sagði Hilmar, spurður út í nýja starfið.
Hann ætlar að taka einn dag fyrir í einu í þjálfun og er spenntur að vinna með yngri leikmönnum innan raða Stjörnunnar.
„Ég hef ekkert spáð mikið í meistaraflokksþjálfun þó ég haldi að það komi. En akkúrat núna langar mig bara að fara í grasrótina.“
Umræðan í heild er í spilaranum.