Elvar Geir Magnússon ritstjóri Fótbolta.net veltir því fyrir sér í pistli hvort landsleikurinn gegn Wales í kvöld sé síðasti landsleikur Age Hareide í starfi.
Íslenska liðið mætir Wales í kvöld í hreinum úrslitaleik um það hvort liðið kemst í umspil um laust sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.
„KSÍ og Hareide hafa ekkert viljað tjá sig um hvað gerist þegar samningur Hareide rennur út. Þorvaldur Örlygsson er sestur í formannsstólinn en það var Vanda sem valdi Hareide. Sjálfur hefur Hareide ekkert viljað tjá sig um það hvort hann hafi svo á annað borð áhuga á því að halda áfram,“ segir Elvar Geir í pistil á Fótbolta.net.
Umræðan um framtíð Hareide hefur í raun verið á flugi í heilan mánuð og Elvar veltir því fyrir sér hvort báðir aðilar vilji binda enda á samstarfið.
„Ætli það sé tilfinning beggja aðila að best sé að binda enda á samstarfið? Verður kannski bara fundað eftir þetta verkefni og spilin sett á borðið? Eins og oft í fótboltanum eru skiptar skoðanir á því hver sé rétti maðurinn í starfið, eins og sést bersýnilega á skoðunum fjölmiðlamanna og hlaðvarpsstjórnenda sem fjalla um landsliðið. Þetta er jú stærsta þjálfarastarf Íslands og augljóst að íslenskir þjálfarar girnast það.“