Michail Antonio missir af leik Jamaíka gegn Bandaríkjunum í Þjóðadeildinni í kvöld. Hann týndi vegabréfi sínu í gær.
Antonio er framherji West Ham en hann hefur skorað fimm mörk í 21 landsleik fyrir Jamaíka.
Steve McClaren fyrrum aðstoðarþjálfari Manchester United stýrir Jamaíka núna, hann tók við liðinu af Heimi Hallgrímssyni í sumar.
„Antonio og Kaheim Dixon týndu vegabréfum sínum, það var of seint að fá ný og fá vegabréfsáritun fyrir þá. Þeir koma ekki með,“ sagði McClaren.
Antonio ákvað að fara að spila fyrir Jamaíka árið 2021 en hann er lykilmaður í liðinu og mikið áfall að hann missi af leiknum gegn Bandaríkjunum.