Harry Kane, landsliðsfyrirliði Englands, viðurkennir að hann hafi vorkennt liðsfélögum sínum í fyrra er hann horfði á þá leika í ensku úrvalsdeildinni.
Kane þekkir það vel að spila í úrvalsdeildinni en hann er markahæsti leikmaður í sögu Tottenham en er í dag á mála hjá Bayern Munchen.
Í Þýskalandi fá félög vetrarfrí en það sama má ekki segja um England þar sem liðin eru á fullu um hátíðarnar.
,,Í Þýskalandi þá fæ ég þetta vetrarfrí svo ég næ að slappa af eftir erfiða tíma,“ sagði Kane.
,,Ég vorkenndi sumum strákunum þegar ég var á ströndinni í fyrra og horfði á þá spila á öðrum degi jóla.“
,,Ég sat þarna á ströndinni með kokteil í hönd og horfði á þá. Þetta hjálpaði mér mikið að ná heilsu. Það fylgir því ákveðinn lúxus að spila í Þýskalandi og ég fæ að upplifa það sama á þessu ári.“