Willum Þór Þórsson heilbrygðisráðherra var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Willum er mikill íþróttaáhugamaður og á auðvitað farsælan feril að baki í fótboltaþjálfun. Hann fylgdsist vel með Bestu deildinni í sumar, þar sem Halldór Árnason stýrði Breiðabliki til sigurs á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.
„Þetta kom mér ekki mikið á óvart en ég verð samt að fá að hrósa honum fyrir að halda stillingu og jafnvægi á kafla sem mætti alveg kalla mótlæti. Þar var liðið frekar flatt en náði úrslitum og missti aldrei alveg damp, en það var ekki mikið í gangi,“ sagði Willum í þættinum.
„Liðið óx inn í mótið á sama tíma og Víkingarnir voru ógnvekjandi flottir. En það kom hikst í Víking í lokinn, þeir tapa bikarúrslitunum. Þessi úrslitaleikur, hvernig Blikaliðið fór inn í þann leik, slepptu bara beislinu. Þeir fóru alla leið inn í pressu og út um allan völl. Manni leið eins og á skólavellinum í gamla daga,“ bætti hann við, en Blikar unnu hreinan úrslitaleik við Víking um titilinn 0-3.
Umræðan í heild er í spilaranum.