Zlatan Ibrahimovic er alls ekki besti leikmaður sögunnar að sögn Marco Materazzi sem gerði garðinn frægan með Inter Milan og ítalska landsliðinu.
Zlatan er ansi kokhraustur einstaklingur og vann ófáa titla á ferlinum en mistókst að vinna Meistaradeildina og þá stóran titil með landsliði sínu, Svíþjóð.
Zlatan hefur oft talað um að hann hafi verið bestur í heimi á sínum tíma en Materazzi tekur ekki undir þau ummæli.
Materazzi bendir á að bæði Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafi alltaf verið fyrir ofan þann sænska á síðustu árum.
,,Hann heldur að hann hafi verið besti leikmaður heims en það er alls ekki mín skoðun,“ sagði Materazzi en Zlatan hefur lagt skóna á hilluna í dag.
,,Hann var mjög, mjög góður leikmaður og skoraði söguleg mörk. Hann vann marga titla en kannski ekki þá mikilvægustu því hann tapaði í Meistaradeildinni, HM og á EM en vann kannski 20 deildarmeistaratitla.“
,,Hann er enginn Messi og hann er ekki Ronaldo, hann er Zlatan Ibrahimovic. Allir munu þekkja það nafn í framtíðinni.“