Svo virðist sem stjórn KSÍ hafi ekkert rætt um framtíð Age Hareide, landsliðsþjálfara á síðasta stjórnarfundi sambandsins. Fundurinn fór fram 23 október.
Fundargerð um fundinn birtist hins vegar ekki fyrr en nú á miðvikudag.
Samkvæmt heimildum 433.is hafa þeir sem stýra sambandinu rætt þjálfaramálin ítarlega undanfarnar vikur og mánuði. Til skoðunar er að nýta uppsagnarákvæði í samningi Hareide en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun.
Íslenska landsliðið er á leið í leiki gegn Svartfjallalandi og Wales í Þjóðadeild karla en eftir þá leiki kemur í ljós hvort Hareide haldi áfram í starfi eða ekki.
Hareide hefur stýrt liðinu í átján mánuði, gengi liðsins hefur verið misjafnt en fræknasti sigur hans kom á liðnu sumri gegn Englandi á Wembley.