Arsenal á að setja allt púður í það að fá inn framherja næsta sumar og er fyrrum leikmaður liðsins William Gallas með nafnið.
Það er Victor Osimhen sem spilar í dag með Galatasaray en hann er í láni hjá félaginu frá Napoli á Ítalíu.
Flestir eru sammála um það að Arsenal þurfi á alvöru níu að halda í framlínuna en Kai Havertz hefur leyst þá stöðu margoft á tímabilinu.
Gallas óttast að það sé ekki hægt að fá inn heimsklassa framherja í janúar en segir Arsenal að fylgjast vel með gangi mála hjá Nígeríumanninum sem hefur byrjað mjög vel í Tyrklandi.
,,Ef ég gæti samið við einn leikmann í janúar þá væri það framherji í heimsklassa en þeir eru yfirleitt ekki fáanlegir í þeim glugga,“ sagði Gallas.
,,Það er enginn framherji í þeim gæðaflokki fáanlegur í janúar. Ég vildi tala um Osimhen því hann er hjá Galatasaray og ég skil ekki af hverju hann er þar.“
,,Þetta er leikmaðurinn sem Arsenal þarf, þeir þurfa leikmann í þessum gæðaflokki. Victor mun kannski ekki skora 20 mörk á hverju tímabili en hann mun gefa öðrum tækifæri á að skora ásamt því að hræða varnarmenn andstæðingsins.“