Ólafur Pétursson hefur ákveðið að láta af störfum hjá meistaraflokkum Breiðabliks, hefur hann þjálfað markverði liðanna síðustu ár.
Ólafur hefur síðustu tvö ár verið með meistaraflokk kvenna en í mörg ár var hann með bæði lið.
„Eftir að hafa þjálfað markmenn í meistaraflokki karla og kvenna í 20 ár hef ég ákveðið að segja þetta gott í bili og stíga til hliðar. Á þessum 20 árum hef ég unnið 20 stóra titla, 11 Íslandsmeistaratitlar og 9 bikarmeistaratitlar ásamt nokkrum Lengjubikartitlum og Meistarar meistaranna hafa komið í hús. Einn stór titill að ári er ekki slæmt meðaltal,“ skrifar Ólafur í færslu á Facebook.
„Frá árinu 2009 til 2022 var ég markmannsþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðablik. Þar unnust fyrstu titlar Breiðabliks og margir Evróputúrar voru farnir. Það var mjög skemmtilegt að kveðja drengina með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn árið 2022 og Anton Ari var valinn markmaður ársins.“
Ólafur var einnig aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. „Frá árinu 2013 – 2024 hef ég verið markmannsþjálfari og aðstoðarþjálfari (7 ár) hjá kvennaliði Breiðabliks og þar hafa svo sannarlega nokkrir titlar komið í hús, það var því vel við hæfi að enda þetta eins og hjá strákunum og vinna Íslandsmeistaratitilinn á Valvelli nú í haust. Það skemmdi nú heldur ekki fyrir að Telma var valinn markmaður ársins. Það gæti ekki verið betra fyrir markmannsþjálfara en að kveðja á þennan hátt.“
Hann segir þó ekki skilið við félagið. „Ég er þó ekki hættur þjálfun hjá Breiðablik. Ég mun halda áfram sem yfirþjálfari markmannsþjálfunar yngri flokka og snúa mér aftur að því sem ég byrjaði að gera hjá félaginu að þjálfa unga markmenn félagsins og vonandi skila þeim sem flestum upp í meistaraflokk þar sem þeir munu vonandi fá tækifæri.“