KR hefur staðfest að Axel Óskar Andrésson hafi rift samningi sínum við félagið, segir í yfirlýsingu að það hafi verið af hans frumkvæði.
Axel gekk í raðir KR fyrir tímabilið en eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við KR var talið líklegt að Axel yrði í litlu hlutverki.
Hann er nú sterklega orðaður við heimkomu í Aftureldingu en uppeldisfélag hans er komið aftur upp í efstu delid.
„Knattspyrnudeild KR þakkar Axel Óskari fyrir framlag hans til félagsins á liðnu tímabili. Axel Óskar er heiðursmaður mikill og frábær félagi, en hann óskaði eftir að fá samningi sínum rift, sem félagið samþykkti. Við óskum Axel velfarnaðar á nýjum vettvangi og þökkum fyrir framlag hans til félagsins og góð kynni,“ segir í yfirlýsingu KR.
Axel sjálfur þakkar svo fyrir sig. „Takk KR-ingar fyrir minn stutta tíma hjá félaginu. Þrátt fyrir að hafa eingöngu verið eitt tímabil hjá KR og þótt að það hafi verið strembið, þá fann maður fyrir hversu ótrúlega sérstakur þessi klúbbur er. Áran yfir Meistaravöllum er ólýsanleg og ég elska fólkið sem kemur að klúbbnum. Ég óska KR alls hins besta í framtíðinni,“ segir Axel.