Thomas Tuchel var nálægt því að taka við liði Manchester United á árinu en þetta segir umboðsmaðurinn Pini Zahavi.
Tuchel hefur lengi verið einn þekktasti stjórinn í bransanum en hefur samþykkt að taka við enska landsliðinu.
Samkvæmt Zahavi þá var Tuchel í viðræðum við United í sumar áður en félagið ákvað að gefa Erik ten Hag meiri tíma.
Það gekk ekki upp að lokum en Ten Hag var rekinn frá United á dögunum og var Ruben Amorim ráðinn til starfa.
Það var ekki möguleiki fyrir United að ræða við Tuchel á nýjan leik þar sem Þjóðverjinn hafði samið við enska sambandið.
Zahavi fullyrðir að Tuchel hafi verið nálægt því að krota undir á Old Trafford og er á því máli að hann hafi gert mistök með því að bíða ekki örlítið lengur.
,,Ef ég væri Thomas þá hefði ég samið við Manchester United,“ sagði Zahavi um stöðuna.
,,Hann fékk tækifærið. Allt var nálægt því að vera klappað og klárt. Í fótboltanum í dag þá þarftu að vera klár og hann þarf að læra það.“