Aaron Wan-Bissaka viðurkennir að honum hafi ekki liðið vel hjá Manchester United eftir komu frá Crystal Palace.
Wan-Bissaka stóðst ekki væntingar á Old Trafford og var seldur til West Ham í sumar og er því mættur aftur til London.
Bakvörðurinn var áður á mála hjá Crystal Palace sem er einnig í London en hann var ekki beint hrifinn af lífinu í Manchester borg.
,,Tíminn þarna var mjög erfiður. Ég fór einn til Manchester og var að flytja að heiman í fyrsta sinn,“ sagði Wan-Bissaka.
,,Það var enginn þarna með mér fyrir utan PlayStation tölvuna. Manchester er minni borg og allir vita hvað er í gangi og hvar.“
,,Þú þarft að vera andlega sterkur og reyna að forðast allt það neikvæða sem fylgir þessu öllu saman.“